149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:05]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og mjög áhugaverða hugleiðingu hvað varðar Landsvirkjun. Það er alveg ljóst að markmið þessarar tilskipunar og markmið Evrópusambandsins í orkumálum er að auka samkeppni og það verður gerð sú krafa á stóra aðila að þeim fyrirtækjum verði skipt upp vegna þess að það er andstætt samkeppnissjónarmiðum að það sé einn ráðandi aðili á markaðnum.

Ég get ekki séð annað en það bíði Landsvirkjunar ef þetta gengur allt í gegn og þegar við erum búin að tengjast Evrópusambandinu verði gerð sú krafa að Landsvirkjun verði skipt upp vegna þess að við fáum ekki neina sérstöðu hvað það varðar með þessum hætti, ekki nema við fáum varanlega undanþágu sem við Miðflokksmenn höfum margtalað fyrir í þessum sal, en fengið lítinn hljómgrunn hjá stjórnarflokkunum. Það er ótti sem þeir láta stjórnast af.

Það er aldrei gott þegar stjórnvöld láta stjórnast af pólitískum ótta við það að leita réttar síns. Það vekur furðu að stjórnmálamenn sem hafa verið í stjórnmálum í áraraðir, ef ekki áratugi, skuli ekki átta sig á því. Þeir láta stjórnast af ótta við að samningurinn verði í einhverju uppnámi. Ég verð að segja það, herra forseti, mér hugnast ekki svoleiðis vinnubrögð og tel að stjórnmálamenn verði að líta í eigin rann (Forseti hringir.) fyrir hverja þeir eru að vinna og hverjir eru umbjóðendur þeirra. Það er jú íslenska þjóðin. Það er það sem skiptir máli í þessu.