149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:12]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að þetta sé alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Það er verið að koma íslenska raforkukerfinu, raforkumarkaðnum, inn á markað sem það á ekki heima á og aðstæður okkar eru allt aðrar. Við sjáum bara hvaða afleiðingar þetta hefur haft fyrir okkur. Við sjáum það t.d. í raforkuverði sem við höfum nefnt hér hvað varðar húshitun, fyrirtæki sem höfðu sérstaka samninga o.s.frv. Allt þetta var bara strikað út með einu pennastriki, með penna frá Brussel, og átti ekkert við í okkar aðstæðum.

Það sem er kannski sýnu alvarlegast sem við þekkjum, og ég á eftir að koma nánar inn á í ræðu hér, er hvernig fór fyrir Hitaveitu Suðurnesja. Þessi uppskipting, þessi krafa frá Evrópusambandinu, gerði það að verkum að grunnur var lagður að því að Hitaveita Suðurnesja var einkavædd. Það eru ein stærstu pólitísku mistök sem gerð hafa verið á Íslandi og grátlegt að horfa upp á það hvernig það góða fyrirtæki, sem var í eigu sveitarfélaganna á Suðurnesjum, var síðan einkavætt og komst í hendur erlendra aðila. Hver hefði trúað því að það ætti eftir að gerast? En það sem lagði grunninn að þessu öllu saman var einmitt þessi orkupakki, eða tilskipun eitt og tvö.

Við sjáum það síðan að þegar orkupakki þrjú kemur, eða tilskipun þrjú er innleidd, þá er verið að opna enn frekar fyrir möguleika af þessu tagi sem verða neytendum (Forseti hringir.) afar óhagstæðir. Ég segi bara, herra forseti: Við höfum brennt okkur illilega á þessu og þess vegna eigum við að hafna þessum orkupakka.