149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:23]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðu hans. Hann víkur þarna að þýðingarmiklu máli sem er að menn eru að setja sig í miklar stellingar hér, margir hverjir, til að fénýta auðlindina og e.t.v. er það svo að með þessum orkupakka skapist aukin tækifæri til slíks.

Það sem ég furða mig á í þessu máli, eitt af mörgum atriðum, er hvernig staðið er að innleiðingu þess. Þetta mál hefur verið kynnt á þann hátt, sérstaklega eftir að fram komu hinar alvarlegu efasemdir í álitsgerð tvímenninganna Friðriks Árna Friðrikssonar og Stefáns Más Stefánssonar, að til þess að óhætt væri að innleiða það væri gerður sérstakur fyrirvari. Þá er þetta lagt upp með þeim hætti, svo þversagnarkennt sem það kann að virðast, að annars vegar sé verið að innleiða gerðir en á einhvern hátt samt ekki vegna þess að fyrirvararnir eigi að sjá til þess að þetta innleiðist ekki, a.m.k. ekki á meðan ekki er fyrir hendi sæstrengur.

Þetta birtist mjög glögglega og hefur verið mér umhugsunarefni síðan ég fékk svar hv. þingmanns, formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins, síðastliðinn miðvikudag þegar ég spurði hvort hann hefði séð fyrirvarann. Hann sagði eitthvað á þá leið að það lægi skýrt fyrir að sá meiri hluti þingsins sem myndi afgreiða málið gerði þann fyrirvara varðandi lagaleg atriði o.s.frv. Og maður spyr sig: Með hvaða rökum geta menn búist við því að í alþjóðlegu samstarfi (Forseti hringir.) taki menn góða og gilda einhverja fyrirvara sem eru gerðir kannski hugrænt af hálfu þess meiri hluta sem ætlar að standa að málinu?