149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:25]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni kærlega fyrir andsvarið. Það er alveg rétt að hér er búið að ræða og það raunar komið fram að þessi sérstaki fyrirvari er ólíklega í boði samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ef ég man rétt, nú er nú langt liðið á nóttina og það getur verið að minnið svíki mig, er kveðið á um það í 97. gr. samningsins að gerðir skulu innleiddar eins og þær koma fyrir, þ.e. án fyrirvara. Ég veit ekki hvort ég fer alveg rétt með orðalagið, það má þá leiðrétta mig. Þetta segir okkur að þessir heimatilbúnu fyrirvarar eru ekkert annað en skraut til heimabrúks. Þeir munu ekki halda neinu vatni. Það er alveg ljóst í þessu máli sem og öðrum, og það er búið að fara nokkrum sinnum inn á það og bera saman við hráakjötsmálið vegna þess að það þekkjum við úr mjög náinni tíð, að þeir fyrirvarar sem Norðmenn gerðu og gerðu kröfu um að yrðu settir inn í innleiðingu gerðarinnar, voru átta. Því hefur verið haldið á lofti sem rökum af hálfu fylgismanna orkupakkans að þeir fyrirvarar séu fordæmi þess að við getum sett fyrirvara og að þeir muni halda. En það er ekkert farið að reyna á þá fyrirvara, ekki á nokkurn hlut. Þar af leiðandi falla þau rök dauð niður. Ég get ekki séð að þeir fyrirvarar sem við ætlum að setja verði settir öðruvísi en að það sé gert inn í sameiginlegu EES-nefndinni og að þeir öðlist þá lagalegt gildi við innleiðingu hér.