149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:29]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir andsvarið. Nei, það er alveg rétt, þessir fyrirvarar virðast birtast og gufa upp jafnóðum, þeim fjölgar og eftir því sem þeim fjölgar, þeim mun ólíklegri verða þeir. Það er búið að benda á ýmsa staði í ræðu hv. þm. Birgis Ármannssonar þingflokksformanns, sem vitnað var til áðan. Þá var fyrst vísað til þess að fyrirvararnir væru á munnlegu formi. Þegar það var dregið í efa benti hv. þingmaður og formaður hv. utanríkismálanefndar á að þeir væru í þingsályktunartillögunni sjálfri og yrðu teknir upp orðrétt og settir inn í innleiðingarreglugerðina.

Í samtali mínu við starfsmann utanríkisráðuneytisins var mér sagt að fyrirvararnir væru ekki settir við innleiðinguna sjálfa heldur væru þeir settir inn gagnvart stjórnarskránni, þ.e. til þess að innleiðingin sjálf héldi vatni gagnvart stjórnarskránni, en ekki til að koma í veg fyrir að orkupakki þrjú yrði innleiddur í óbreyttri mynd. Þessir fyrirvarar taka því stöðugum breytingum og virðast verða ólíklegri eftir því sem við tölum lengur.

Ég verð að segja að ég er sammála þingmanninum um að það sé með miklum ólíkindum að haldið skuli svo fast við að fara þessa leið í bullandi ósátt við þing og þjóð, vegna þess að þingið er að lýsa því yfir, sama hvar í flokki menn standa, að menn vilji ekki innleiða orkupakka þrjú óbreyttan.