149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:36]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta vekur aftur upp þá umræðu sem hefur verið af hálfu þeirra sem vilja þennan gjörning, þ.e. sú skoðun hefur komið fram að við séum hvort sem er í gegnum tíðina, í gegnum þau 25 ár sem EES-samningurinn hefur staðið, búin að framselja svo mikið af stjórnskipulegu valdi til EES, að við séum þegar búin að afsala það miklu að það muni ekki um einn blóðmörskepp enn í sláturtíðinni með þessum pakka nú. Og menn hafa beinlínis haldið því fram að það sé bitamunur en ekki fjár að samþykkja þennan pakka einmitt vegna þess.

Mig langar í sjálfu sér til að heyra skoðun hv. þingmanns á akkúrat þessu atriði, að menn séu kannski bara — og nú er ég að tala um þá sem aðhyllast það að afgreiða þennan pakka — búnir að tala sig sljóa í þessu máli, þ.e. með því að segja: Heyrðu, þetta skiptir ekki máli af því að við erum búin að gera þetta svo mörgum sinnum áður nú þegar. Það harmónerar við það sem hv. þingmaður var að tala um, að í okkar stjórnarskrá eru ekki heimildir til þessa framsals með jafn skýrum hætti og í stjórnarskrám landanna hér í kringum okkur.

Og eitt af argúmentunum, afsakið, herra forseti, hefur verið það að við þurfum bara að taka upp nýja stjórnarskrá með þessu ákvæði inni og þá sé málið leyst, (Forseti hringir.) með framsalsheimildum. Mig langar að fá skoðun hv. þingmanns á þessu, hvort þetta sé kannski staðan, (Forseti hringir.) að við séum bara orðin sljó af því að hafa smátt og smátt afhent öðrum vald.