149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:39]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum enn á ný fyrir andsvarið. Hvort menn séu búnir að tala sig sljóa hér og það muni ekki um einn kepp í sláturtíðinni, þetta sé bitamunur en ekki fjár — ég held að svo megi líta á um suma sem hafa haldið uppi vörnum fyrir innleiðingu pakkans en ekki alla. Ég held nefnilega að stór hluti þingmanna vilji ekki framselja valdið og að þeir vilji fyrir alla muni halda inni fyrirvörum sem haldi. Á einhvern óskiljanlegan hátt hafa menn rýnt hlutina svo að með þessum svokölluðu fyrirvörum sé algerlega tryggt að þeim efasemdarmönnum sem hér hafa staðið í ræðustól og haldið ræður sé gert það hátt undir höfði að þeir geti óhikað greitt þessu atkvæði sitt.

Hins vegar eru þeir sem telja þetta bitamun en ekki fjár og ganga kannski enn lengra og telja þetta ekki skipta nokkru máli, vegna þess að hugur þeirra stendur beinlínis til þess að ganga í Evrópusambandið. Þá aðila skil ég miklu betur, það er þeirra einlæga sannfæring að okkur Íslendingum sé betur borgið þar innan borðs. Ég get vel borið virðingu fyrir þeirri skoðun þó að hún sé ekki sú sama og ég hef, að þeir telji að þetta sé raunverulega bara eitt skrefið í þá átt — bitamunur en ekki fjár, að þetta sé raunverulega eðlilegur framgangur í þeirri vegferð að koma okkur Íslendingum í Evrópusambandið um alla framtíð.