149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Mig er hálfvegis farið að gruna að hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson vilji ganga í Evrópusambandið, myndi ekki veðja á það, en mér þykir það líklegt. En ég er þakklátur þeim þingmönnum sem hér tóku þátt í þessari umræðu og ræddu þriðja orkupakkann. Vil benda þeim hinum sömu á að dagskrárliður 3 í dag fjallar einmitt um þriðja orkupakkann og það má reikna með því að umræður standi fram eftir degi, þannig að allir komast örugglega að sem þess óska.

Hér varð nokkur umræða í gær og í gærkvöldi og inn í daginn. Það vildi þannig til að við sem stóðum í þessari umræðu fengum alls konar skeytasendingar frá fólki sem var að fylgjast með og það virtust vera fleiri almennir borgarar, ef ég get orðað það þannig, sem voru að fylgjast með þessari umræðu heldur en hv. þingmenn, sem er gott, var okkur mikil hvatning og mjög gott.

Ég var sjálfur staddur í Svíþjóð í sömu erindagjörðum og hv. þingmaður sem hér talaði á undan. Á Svíþjóð og Íslandi er einn reginmunur. Þar eru ekki stjórnvöld sem reyna að pína í gegn mál í ósætti og það er yfirleitt samkomulag um þau mál sem fara á dagskrá og þess vegna er svokallað málþóf óþarft.

Það sem hins vegar í sjálfu sér rak mig upp í þennan stól í dag var það að ég heyrði í fréttunum í hádeginu frásögn af þessum þingdegi í gær, aðra hjá ríkisfjölmiðli sem kostar 4.000 milljónir af skattfé á ári, hina af fjölmiðli sem langar að komast undir pilsfald menntamálaráðherra og fá hlut í fé til síns reksturs. Fréttin fjallaði um það að klukkan hálffjögur í nótt var rædd fundarstjórn forseta.

Nú langar mig til að fullvissa hæstv. forseta sem hér situr að ef það kemur í ljós í dag eða einhvern tíma seinna að hér verður gripið í stutta umræðu um fundarstjórn (Forseti hringir.) forseta, þá er það eingöngu til þess gert að fréttamiðlar geti fundið eitthvað fréttnæmt og þeir viti það að hér sé ekki slegið slöku við á þingi (Forseti hringir.) í umræðum um fundarstjórn forseta.