149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

um fundarstjórn.

[14:05]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að taka hv. þm. Þorstein Sæmundsson á orðinu. En hins vegar er tilefni þess að ég tek hér til máls um fundarstjóra forseta alveg ótengt þeim málum sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson var að ræða.

Ég heyrði að hæstv. forseti gerði áðan athugasemdir við ummæli hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar hér í ræðustól. Ég tel að ummælin hafi stappað því nærri að vera vítaverð eins og þingsköp kveða á um, ekki eingöngu vegna þess að í þeim fólst endurtekning á aðdróttunum og ærumeiðingum í garð hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar heldur líka vegna þess að það er verið að gera lítið úr þeirri málsmeðferð sem átt hefur sér stað á vegum þingsins, bæði af hálfu hæstv. forsætisnefndar og siðanefndar.

Mér finnst afar sérkennilegt að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, gangi fram með þeim hætti í ljósi allrar forsögu málsins, hvað það hefur fengið mikla umfjöllun og hvernig þessum ásökunum hans og fleiri hefur verið svarað.