149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

um fundarstjórn.

[14:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan fara eftir settum reglum en það er háð því að ég skilji þær. Ég verð að segja að eftir álit siðanefndar um ummæli hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur veit ég ekki til hvers er ætlast af mér þegar ég þarf að ræða erfið mál sem varða notkun annarra þingmanna á þeim úrræðum sem þeir hafa til þess að fá það fé endurgreitt þeir segjast hafa eytt til þingstarfa. Ég hreinlega veit það ekki. Það er algerlega heiðarlegt þekkingarleysi af minni hálfu. Fullkomnari maður er ég bara ekki, virðulegur forseti.

Ég átta mig enn síður á því hvað er við hæfi undir dagskrárliðnum um störf þingsins ef ekki ræða hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar áðan. Virðulegur forseti sagði við ræðu hv. þingmanns orðrétt, með leyfi forseta: „Forseti telur þessa notkun dagskrárliðarins ekki við hæfi.“

Mig langar að inna virðulegan forseta eftir því hvað nákvæmlega hann átti við með því, hvað hafi ekki verið við hæfi og hvernig við eigum þá að nálgast málefnið, sem er það að við veitum þingmönnum aðhald í því hvernig þeir fara með fé.