149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

um fundarstjórn.

[14:10]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Í greininni sem forseti vitnaði til er talað um brigslyrði. Það er ágætt að forseti notaði ekki þá grein að kalla þetta vítavert. Þá myndi hann þurfa að rökstyðja hvað af þeim orðum sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson lét falla féllu undir brigslyrði; og brigslyrði eru órökstuddar ávirðingar eða ásakanir á hendur öðrum. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson rökstuddi í máli sínu á hvaða grunni hann væri að tala, að hv. þm. Ásmundur Friðriksson hefði sjálfur viðurkennt ákveðna hluti, sem Björn Leví Gunnarsson segir að fylgi ekki reglunum.

Ef við ætlum að fylgja lögum í þessu landi þá er sannleikurinn alltaf vörn fyrir því að ganga ólöglega gegn mannorði fólks. Sannleikurinn er alltaf vörn og það er ekki verið að taka tillit til þess.