149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég trúi því eiginlega ekki alveg að hv. þingmaður skilji ekki spurninguna, en þetta álit frá 19. mars sem hv. þingmaður nefnir er frá því áður en málið var lagt fram. Málið var lagt fram 1. apríl. Þá kemur annað álit frá sömu hv. fræðimönnum 10. apríl. Þetta er tímaröðin. Í því áliti kemur fram um málið eins og það er lagt fram — virðulegur forseti, ég veit ekki alveg hvernig ég get verið skýrari. Ég er ekki að tala um þriðja orkupakkann áður en málið var lagt fram. Ég er að tala um þetta mál eins og það er lagt fram. Og um það segja hv. fræðimenn að enginn lögfræðilegur vafi sé á því að sú leið sem þar er farin sé í samræmi við stjórnarskrá.

Þetta liggur fyrir, virðulegi forseti, og þetta er staðreynd. Ég nenni ekkert að rökræða þessa leið mikið frekar. Ef hv. þingmaður er eitthvað ósammála henni þarf hann bara að lesa þessa setningu eða heyra það sem ég er að benda á. Þetta er ekki álitamál. Það er staðreynd að þeir skrifuðu þetta 10. apríl eftir að málið er lagt fram og skrifuðu það sem hv. þingmaður vitnaði í 19. mars áður en málið var lagt fram. Þetta hefur komið fram margoft.

Það vekur athygli mína að hv. þingmaður virðist ekki ætla að vera ósammála þeirri niðurstöðu minni af yfirlestri á umsögn hv. fræðimanns Eyjólfs Ármannssonar að þar komi einmitt ekki heldur fram nein rök fyrir því að það sé einhver stjórnarskrárlegur vafi uppi. Hann nefnir að hann telji augljóst að stjórnvöld séu sjálf í vafa um lagagrundvöll fyrirhugaðrar innleiðingar, en hann dregur þá ályktun út frá þeirri staðreynd, ef ég skil þetta alveg rétt, að fyrirvararnir eru gerðir, þeir séu til að koma til móts við það. Það er rökstuðningurinn.

Ég get ekki reiknað út rökin í þessari umsögn þannig að málið eins og það liggur fyrir núna, hérna, þetta þingmál, þetta hérna þingmál, virðulegi forseti, ég get ekki verið skýrari, (Forseti hringir.) standist ekki stjórnarskrá. Ég kem ekki auga á neinn fræðimann á sem hefur sagt að það sé vafi um það, hvað þá mikill.