149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:29]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ef við skoðum þann mikla fjölda umsagna sem borist hafa utanríkismálanefnd vegna þessarar innleiðingar vekur það okkur óneitanlega til umhugsunar um mikilvægi málsins og hve margir hafa áhyggjur af því. Ég held að um 70% umsagna sem komu fyrir nefndina séu neikvæðar gagnvart innleiðingu þessa orkupakka. Ég vil nefna Samband garðyrkjubænda. Hörð andstaða er meðal garðyrkjubænda gagnvart innleiðingu þessarar orkutilskipunar og það ætti svo sem ekki að koma á óvart.

Hér var mjög góð sérstök umræða í gær, að frumkvæði hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar, um garðyrkjuna og þau gríðarlegu tækifæri sem hún hefur hér á landi ef rétt verður á málum haldið. Í því sambandi skiljum við mjög vel áhyggjur garðyrkjubænda vegna þess að ef fram heldur sem horfir verða öll sérkjör afnumin þegar búið er að markaðsvæða íslenskan raforkumarkað á hinu stóra Evrópska efnahagssvæði.

Mig langar að fá það fram frá hv. þingmanni hvort ekki sé eðlilegt að meta áhrifin í samfélaginu á hinar ýmsu atvinnugreinar, áhrif þessarar innleiðingar.