149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi út af fyrir sig hitt naglann á höfuðið akkúrat þarna. Það er ekki einasta að Samtök garðyrkjubænda hafi lýst yfir mikilli andstöðu við þennan orkupakka heldur hafa bakarameistarar og fleiri einnig gert það. Við orðuðum það þannig, fyrir þá sem ekki voru vakandi fram á nótt í gær, að ákveðinn tvískinnungur væri í því fólginn að hér á Alþingi væru menn, þ.e. hv. þingmenn, að mæra íslenska garðyrkju, að hvetja til vaxtar hennar, sem ég tek heils hugar undir, en þetta sama fólk væri með hinni hendinni að vinna að máli sem mun skerða möguleika þeirrar sömu greinar til vaxtar og viðgangs. Mér finnst það í hæsta máta, hvað á ég að segja, óeðlilegt, eða ósmekklegt jafnvel, að menn skuli predika í öðru orðinu að auka beri veg garðyrkjunnar en vera á sama tíma að mola undan henni grunninn með því að innleiða þennan orkupakka.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni að það vantar mikið á. Auðvitað er þetta þingsályktunartillaga. Það er alltaf að koma betur og betur í ljós af hverju menn settu þetta í þingsályktunartillögu en ekki í frumvarp. Menn útiloka forsetann, menn þurfa ekki að kostnaðarmeta o.s.frv., þ.e. samkvæmt þessum lögum sem um framlagningu mála gilda, heldur koma menn bara hér með óljósar hugmyndir um hitt og þetta sem margar hverjar standast ekki skoðun, þar á meðal þetta, að garðyrkjubændur eru skildir eftir með sárt ennið. Það er því mjög nauðsynlegt að fram fari gaumgæfileg úttekt á því hvaða áhrif þetta hefur efnahagslega á hinar ýmsu stéttir.