149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni gott svar. Það er fullkomlega eðlileg og réttmæt krafa að mikilvægar greinar sem garðyrkjan er fái að vita hvort stuðningur verði áfram heimill. Það liggur ekki fyrir. Um er að ræða grein sem hefur gríðarleg tækifæri, framleiðir frábæra vöru á heimsmælikvarða. Við með alla okkar orku höfum alla burði til þess að verða fremstir þjóða í að framleiða hágæðavöru eins og garðyrkjubændur framleiða. Það er því mikið áhyggjuefni að ekki skuli vera búið að meta áhrifin af þessari tilskipun á grein eins og garðyrkjuna. Maður skilur mjög vel áhyggjur greinarinnar af því.

Að sjálfsögðu eigum við að nota innlenda orku í innlenda framleiðslu. Því miður er alveg ljóst að verði áform um sæstreng að veruleika — hann mun koma, það er bara spurning um árafjöldann hvenær hann kemur — mun verðlag örugglega hækka til garðyrkjubænda. Það er lögmál framboðs og eftirspurnar, markaðurinn ræður, að þar sem verðið er hæst þangað leitar varan. Það verður nákvæmlega það sama með garðyrkjuna.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þessa ábendingu hans um að á ferð sé þingsályktunartillaga. Hér er því engin kostnaðarmatsgreining og engin áhrif metin af innleiðingunni sem er náttúrlega verulega ámælisvert.