149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef það væri bannað að mála hús rauð á litinn væri ekki hægt að kæra einhvern fyrir að mála hús rautt á litinn sem er ekki til. Það er ekkert í 7.–9. gr. reglugerðar nr. 713/2009, sem allt þetta havarí snýst um í sambandi við stjórnarskrárlegt gildi og fyrirvarana, sem kemur Íslandi við í eðli sínu nema hingað komi sæstrengur. Þá kemur aftur upp stjórnarskrárspurningin og þá skal ég glaður taka aftur þetta samtal. Þá fer samtalið reyndar að snúast um það hvort þessir fyrirvarar séu yfir höfuð nauðsynlegir, sem ég tel ekki vera. Þeir eru aðallega til þess að koma til móts við áhyggjur íhaldssömustu fræðimanna sem þó byggja sínar ályktanir á túlkun reglugerðarinnar, sem ég er ósammála og get fært rök fyrir því hvers vegna ég sé ósammála og hygg reyndar að þeir myndu sannfærast sjálfir ef þeir fengju þau rök í hendurnar ef þeir hafa ekki gert það nú þegar. En ég ætla svo sem ekki að fara að gera þeim upp einhverjar skoðanir ólíkt hv. þingmönnum Miðflokksins sem hafa gert það hér dögum saman.

Eftir stendur að það er ekki sæstrengur á Íslandi og þar af leiðandi er ekkert að kæra í sambandi við 7–9. gr.(Forseti hringir.) Það er bara ekki hægt að kæra. Það er ekki hægt að kæra ákvörðun sem er ekki hægt að taka (Forseti hringir.) og það er ekki hægt að taka ákvörðun um aðgang að sæstreng sem er ekki til. (Forseti hringir.) Þess vegna er hættan engin. Það eru 0% líkur á því að nokkur skapaður hlutur verði kærður í þessu sambandi (Forseti hringir.) fyrr en við leggjum sæstreng og þá tökum við samtalið aftur (Forseti hringir.) um það sem kemur fram í fyrirvörunum og lagafrumvarpinu.

(Forseti (JÞÓ): Forseti vill minna þingmenn á að halda ræðutíma. Þetta er mjög stuttur tími þegar fjórir fara í andsvör, ein mínúta í hvert sinn, en forseti biður menn samt um að virða þau tímamörk.)