149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:49]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka enn og aftur fyrir þessar hugleiðingar. Ég mótmæli því að ég hafi gert hv. þingmanni eða öðrum þingmönnum upp skoðanir. Ég mótmæli því og vil endilega að hann bendi mér á það hvenær ég hef gert honum upp skoðanir (HHG: Fræðimönnunum.) ef hann telur það. Ég uni honum bara að hafa sínar ágætu skoðanir og hann hefur frelsi hér og hefur lýst þeim margoft í ræðustól og það er auðvitað athyglisvert að hlusta á þær. Við erum einfaldlega ekki sammála að mörgu leyti.

Ég vil endurtaka dæmið sem ég tók áðan um eitthvert bæjarfélag sem telur sig ekki þurfa að fara eftir umferðarlögum vegna þess að þar eru engir vegir. En eigum við þá að taka þá áhættu? Vegna þess að hingað hefur enginn sæstrengur verið lagður enn þá, eigum við að taka þá áhættu og gera þann óþarfa að innleiða reglugerðir sem eiga ekki við? (Forseti hringir.) Af hverju skyldum við gera það? (HHG: …hraðakstri á tunglinu?)