149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:50]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Sá sem hér stendur telur að íhaldssamir sérfræðingar séu gulls ígildi. Mig langar til að spyrja hv. þingmann út í hlut sem kemur fram í grein eftir Eyjólf Ármannsson lögmann, þar sem segir:

„Í sameiginlegum skilningi utanríkisráðherra og orkumálastjóra ESB kemur fram að vegna sérstöðu Íslands með einangrað dreifikerfi raforku hafi stór hluti ákvæða þriðja orkupakkans hvorki gildi né raunhæfa þýðingu hérlendis. Vegna aðstæðna á Íslandi segir einnig: „Þess vegna hentar hið sérstaka fyrirkomulag fyrir Ísland, sem sameiginlega EES-nefndin samþykkti, þar sem komist er hjá allri ónauðsynlegri byrði, best fyrir íslenskar aðstæður.“ Óljóst er hvaða „sérstaka fyrirkomulag fyrir Ísland“ nefndin samþykkti en hana er ekki að sjá í ákvörðun hennar.“

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann sé einhverju nær um það hvaða sérstaka samkomulag fyrir Ísland er hér um að ræða, í hverju það felist og hvaða áhrif það hafi?