149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:54]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir þessa spurningu, sem er ansi áhugaverð. Mitt mat er það að þetta hafi ekki lagalegt gildi, það er stutta svarið. Þetta hefur fyrst og fremst pólitískt gildi. Þetta er sett fram til að róa íslenska pólitík og hugsanlega íslenskan almenning og notast í þeim tilgangi. Þegar þessir menn sem stóðu að þessari yfirlýsingu hafa lokið störfum sínum og gengið til annarra starfa í framtíðinni þá hefur þetta ekkert gildi. Og þetta hefur ekkert gildi ef reynir á þessar reglur. Þetta er í mesta lagi léttvægt hliðsjónarplagg ef á skyldi reyna, að einhvern tímann hefði einhver sagt að svona væru hans hugmyndir um þetta ákvæði.