149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:55]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og eftirminnilega samlíkingu sem hún hafði að geyma. Orðfæri sem gengur lausum hala í þessari umræðu er „belti og axlabönd“. Haft er eftir hv. þingmanni úr stjórnarliðinu, úr Framsóknarflokknum líklega, ég man ekki hver það var — þar er farið að bæta inn hártoppi og einhverju fleira í öryggisskyni. En að öllu gamni slepptu þá virðist þetta gefa til kynna að ríkisstjórnin og stuðningslið hennar álíti að samfara innleiðingu þessa orkupakka sé þjóðinni ákveðinn háski búinn, það steðji að þjóðinni ákveðin vá sem kalli á öryggisráðstafanir. Mér þykir gæta svolítils ósamræmis í þessu. Mikið kapp er lagt á að fá þennan orkupakka samþykktan, en samt sem áður er talað með þessum hætti, belti og axlabönd og allt hitt, eins og ákveðin hætta sé fyrir hendi.

Áttar hv. þingmaður sig á þessu misræmi eða hefur hann fundið leið til að koma þessu heim og saman?