149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:58]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er annað atriði sem ég vil inna þingmanninn eftir og það varðar þann lagalega fyrirvara sem gert er ráð fyrir. Að vísu stendur eiginlega yfir leit að þessum lagalega fyrirvara og væri fróðlegt að fá upplýsingar um það ef hann kynni að finnast. En í þingsályktunartillögunni er talað um að hin tilgreinda reglugerð, sem er kannski mest umdeild, 713, verði innleidd í íslenskan rétt með hefðbundnum hætti en með lagalegum fyrirvara, og komi ákvæði hennar, sem varðar tengingar yfir landamæri, ekki til framkvæmda fyrr en eftir að ákveðinn atburður hefur átt sér stað.

Ég velti fyrir mér þessu orðalagi, af því að hv. þingmaður er nú lögfræðingur að mennt. Það er ekki talað um að ákvæði reglugerðarinnar, sem á að hljóta lagagildi með þessari innleiðingu, taki ekki gildi heldur að þau komi ekki til framkvæmda. Getur hv. þingmaður varpað ljósi á þetta? Er bara eitthvert orðskrúð í gangi hér, kannski til að slá ryki í augu fólks?

(Forseti (JÞÓ): Forseti minnir þingmenn aftur á að halda ræðutíma.)