149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:00]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna sem var prýðisgóð. Mig langar að koma aðeins inn á skýrslu sem var gerð um sæstreng, þ.e. skýrslu verkefnisstjórnar sæstrengs til iðnaðar- og viðskiptaráðherra frá því í júlí 2016. Þar kemur fram varðandi Noreg, með leyfi forseta:

„Áætlað er að lagning sæstrengja frá Noregi til Þýskalands og Bretlands muni hækka rafmagnsreikning meðalheimilis í Noregi um 12 þúsund krónur á ári og á sama tíma munu tekjur sveitarfélaga og ríkisins aukast. Ekki hefur verið farið í sérstakar mótvægisaðgerðir fyrir heimili í Noregi til lækkunar á raforkuverði.“

Ég myndi vilja fá álit hv. þingmanns á þessu. (Forseti hringir.) Er ekki nánast alveg öruggt þegar sæstrengurinn kemur að við verðum í sömu sporum og Noregur hvað þetta varðar?