149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:03]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að það sé nákvæmlega þetta sem við þurfum að gera. Við þurfum að horfa á reynslu nágrannaþjóðanna hvað þetta varðar. Þar er Noregur nærtækasta dæmið. Hér höfum við það svart á hvítu í skýrslu sem unnin er fyrir iðnaðar- og viðskiptaráðherra árið 2016. Þar segir að sæstrengur hafi hækkað raforkuverð til heimila í Noregi um þó nokkra upphæð. Ég held að alveg ljóst sé að nákvæmlega sama mun verða upp á teningnum hér. Þá segja stjórnvöld: Við þurfum ekkert að óttast. Við erum ekki að fara að leggja sæstreng nema Alþingi heimili það. En kjarni málsins er þessi: Hvort sem okkur líkar betur eða verr mun sæstrengur koma og það er nær okkur í tíma en margan grunar. Það hafa sérfræðingar bent á og Landsvirkjun o.s.frv.