149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Fyrr í dag gerði sitjandi forseti og aðalforseti athugasemd við að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson sagði satt hér í pontu: Mér finnst vanta að gerðar séu athugasemdir við það þegar kemur blákaldur óheiðarleiki frá hv. þingmönnum í ræðum um þetta mál, blákaldur óheiðarleiki, sem einungis af tæknilegum ástæðum er ekki alveg hægt að kalla lygi svo að staðreynd sé. En blákaldur óheiðarleiki.

Það er allt í góðu að hafa ólíkar skoðanir á þessu, að hafa ólíkar skoðanir á lagatúlkunum og þannig. En þegar hv. þingmenn láta eins og að þeir fræðimenn sem hafa sent inn umsagnir segi annað en þeir segja þá eru þeir óheiðarlegir. Þeir eru að gera mönnum úti í bæ, sem ekki eru hér til að verja sig, upp skoðanir sem þeir hafa sagt algerlega skýrt að þeir hafi ekki.

Sömuleiðis með það að þessir fyrirvarar finnist ekki. Þeir bæði finnast í greinargerðinni, eins og hv. þingmenn vita mætavel, og voru sendir. Það voru send drög að reglugerð til atvinnuveganefndar (Forseti hringir.) seinasta föstudag eins og hér hefur margoft verið nefnt. Það er allt í lagi að hafa efasemdir um fyrirvara. Gott og vel, ef hv. þingmenn hafa ekki trú á lögmæti þeirra eða lagalegri túlkun eða hvaðeina. En, virðulegi forseti, hv. þingmenn eiga alla vega að segja satt um staðreyndirnar.