149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:15]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Skjal sem er hluti af gögnum þessa máls hefur fengið mikla athygli hér. Það er lögfræðileg álitsgerð um stjórnskipuleg álitamál tengd framsali ríkisvalds til stofnana ESB/EFTA vegna þriðja orkupakka ESB. Þessi álitsgerð er dagsett 19. mars 2019 og höfundar hennar eru þeir Friðrik Árni Friðriksson Hirst lögmaður og Stefán Már Stefánsson, prófessor emerítus. Þessi álitsgerð er allmikil að vöxtum en hún er afar vönduð að því er best verður séð, afar áhugaverð, leyfi ég mér að segja. Er ástæða til að hvetja fólk, til að mynda þá sem eru að fylgjast með þessari umræðu, til að kynna sér hana sem best.

Staðan er þessi: Þegar litið er yfir þessa álitsgerð má með hæfilegri einföldun segja að þar sé annars vegar fjallað um hugsanlegan árekstur við ákvæði stjórnarskrárinnar og á hinn bóginn er fjallað um afleiðingar af innleiðingu þeirra gerða, eins og það heitir á evrópuíslensku, og mun ég víkja að þessum tveimur þáttum. Á a.m.k. tveimur stöðum í álitsgerðinni nota höfundar orðalagið „verulegur vafi“ í tengslum við stjórnarskrána. Þeir segja til að mynda í kafla 4.4, með leyfi forseta:

„… er það niðurstaða höfunda álitsgerðarinnar að verulegur vafi leiki á því hvort framsal ákvörðunarvalds til ESA samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009 … rúmist innan ákvæða stjómarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.“

Sömuleiðis segir í kafla sem er merktur 6.1:

„… telja höfundar að [það] leiði til þeirrar ályktunar að verulegur vafi leiki á því hvort umrætt valdframsal til ESA rúmist innan stjórnarskrárinnar.“

Ég geri ráð fyrir því að ákveðin lögmál ríki við ritun álitsgerðar af þessu tagi, þær einkennast af því að orðalag er jafnan mjög hófstillt. Þess vegna vekur það mikla athygli þegar hér standa orð eins og „verulegur vafi“, ekki er látið nægja að tala um vafa heldur verulegan vafa.

Sömuleiðis er rétt að vekja athygli á því að höfundar segja, þar sem verið er að fjalla um að hingað liggi ekki sæstrengur:

„Engin heimild er til þess að taka í lög ákvæði sem ekki fá staðist íslenska stjórnarskrá þó að svo standi á að ekki reyni á umrædd lagaákvæði í svipinn.“

Ég geri ráð fyrir því að þessum fyrirvara, sem hér er margnefndur, sé ætlað að bregðast við þessu.

Varðandi afleiðingar af því sem hljótast myndu af innleiðingu þessa orkupakka þá er í þessari sömu álitsgerð, sem hér hefur verið vitnað til, rætt um að valdframsalið leiði til þess að erlendir aðilar hafi áhrif, a.m.k. óbein, á skipulag, ráðstöfun og nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar. Það er í kafla 6.2 sem þetta kemur fram svo að því sé öllu haldið til haga, herra forseti.

Það er eðlilegt að margir (Forseti hringir.) reki upp stór augu við lestur þessarar álitsgerðar og spyrji: Erum við á réttri leið með því að innleiða þessar gerðir, þennan þriðja orkupakka?