149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:30]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna, það var prýðisgóð ræða. Það sem mig langaði að koma aðeins inn á við hv. þingmann eru þessar fjölmörgu umsagnir, ég hef verið að fjalla svolítið um þær hér, sem hafa borist utanríkismálanefnd um þessa þingsályktunartillögu um að innleiða þriðja orkupakkann. Eins og ég hef nefnt áður eru 70% allra umsagna neikvæð í garð þessarar tilskipunar og innleiðingar hennar.

Einn af þeim aðilum sem sendir inn umsögn er Alþýðusamband Íslands. Sú umsögn er á þann veg að Alþýðusambandið telur þetta mál vera afar umdeilt, að það vegi að grunnstoðum samfélagsins, eins og það er orðað, og jafnframt segir að grunnstoðir samfélagsins eins og raforkan okkar, sú mikla auðlind sem við eigum, eigi að vera undanskilin markaðslögmálum. Það sé ábyrgðarhlutur að láta markaðinn véla um slíkar grunnstoðir, það sé samfélagsleg ábyrgð af hálfu stjórnvalda að sjá til þess að svo verði ekki.

Verði það að veruleika að þessi tilskipun verði innleidd hér af ríkisstjórninni og þeim flokkum sem styðja hana í þessu, Samfylkingu og Pírötum, hvaða áhrif telur hv. þingmaður að það geti haft á samskipti ríkisins og verkalýðshreyfingarinnar? Nú hefur það t.d. komið fram að (Forseti hringir.) Alþýðusambandið er farið að hafa áhyggjur af því að ekki hafi verið staðið við gerða kjarasamninga hvað varðar hlut ríkisins. Ég bið hv. þingmann að koma aðeins inn á þetta, ef hann er tilbúinn til þess.