149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil í þessari ræðu minni beina sjónum að Hitaveitu Suðurnesja, fyrirtæki sem var og hét og sveitarfélögin á Suðurnesjum áttu, og hvernig innleiðing orkupakka eitt og tvö varð til þess að sveitarfélögin á Suðurnesjum misstu eignarrétt sinn yfir því fyrirtæki og það fór í hendur einkaaðila. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé einmitt víti til varnaðar, að sú staða geti komið upp, við innleiðingu orkupakka þrjú, að hér á landi yrði stórfelld einkavæðing í orkugeiranum með tilheyrandi afleiðingum fyrir almenning og samfélagslega þættinum þá hreinlega bara sleppt. Hann er mjög mikilvægur í okkar harðbýla og strjálbýla landi, að allir eigi aðgang að ódýrri orku.

Ég er líka þeirrar skoðunar, herra forseti, að þetta séu ein dapurlegustu pólitísku mistök sem gerð hafa verið á síðari árum hér á landi þegar Hitaveita Suðurnesja var seld. Það er líka áhugavert að skoða með hvaða hætti þetta var gert og þátt stjórnmálamanna eða sveitarstjórnarmanna í því og hvernig ekki var staðið við yfirlýsingar. Þess vegna veltir maður fyrir sér hvort sú staða gæti komið upp að við verðum í sömu sporum, að það sem stjórnarliðar segja hér í dag, að almenningur þurfi ekki að hafa áhyggjur af málinu o.s.frv., komi ekki til með að standast og menn séu í raun að segja eitt í þessum efnum og gera annað.

Það er sem sagt þarna á árunum um 2003 sem Reykjanesbær byrjar að selja fasteignir sínar og það var í tíð hreins meiri hluta Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Fljótlega koma fram áhyggjur af því að ráðandi hlutur í hitaveitunni verið einnig seldur en þá stíga bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ fram og fullvissa íbúana um að ekki standi til að selja hlutinn í hitaveitunni. Þetta er 2003. Fjórum árum síðar byrjar sami meiri hluti Sjálfstæðismanna að selja hlutinn í hitaveitunni þrátt fyrir að hafa sagt fjórum árum áður að ekki stæði til að selja hlutinn. Íbúum er sagt að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af þessu þar sem bærinn muni áfram eiga ráðandi hlut í hitaveitunni.

Síðan fara hin sveitarfélögin að selja hluti sína ásamt Reykjanesbæ, það voru miklu minni hlutir, en eins og ég sagði áðan var fyrirtækið í eigu allra sveitarfélaga á Suðurnesjum. Í öllu þessu ferli eru íbúar hvergi spurðir álits. Það er hliðstætt þessu máli, að almenningur er illa upplýstur um orkupakka þrjú, innleiðingu tilskipunar Evrópusambandsins um sameiginlega markaðsvæðingu orkunnar á hinu sameiginlega evrópska markaðssvæði. Almenningur er illa upplýstur um málið og í raun hvergi spurður álits. Það er nákvæmlega það sama og við getum sagt um þetta mál á Suðurnesjum, íbúar hvergi spurðir álits. Það er haldið áfram og alltaf í þeirri trú að verið sé að gera góða hluti og að þetta komi hvergi niður á almenningi.

Annað kom á daginn. Það gerist síðan árið 2009 að Reykjanesbær selur allan hlutinn í hitaveitunni og þá er það um sex árum eftir að því var lýst yfir að ekki standi til að selja hlutinn. Við sjáum bara, því miður, hvernig stjórnmálamenn standa ekki við það sem þeir segja. Ég óttast, herra forseti, að við verðum í svipuðum sporum hvað þetta mál varðar, að það sem er sagt hér núna, eins og ég nefndi áðan, komi ekki til með að standast.

Ég óska eftir því, herra forseti, að vera settur aftur á mælendaskrá vegna þess að (Forseti hringir.) ég ætla að fjalla nánar um þetta mikilvæga mál, þessi umræða á svo sannarlega rétt á sér.