149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:46]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir gott andsvar og mjög áhugavert. Ég hef velt þessu mikið fyrir mér sjálfur. Hv. þingmaður nefndi samskipti þjóða á milli, alþjóðasamskipti sem eru mikilvæg fræðigrein á sviði alþjóðastjórnmálanna. Ef maður skoðar ýmis fræðirit tengd alþjóðasamskiptum hefur það verið þannig að lítil ríki sem eru á alþjóðasviðinu og í samskiptum við stærri ríki njóta yfirleitt velvilja. Ég held að það megi fullyrða að gagnvart stóru ríkjunum njóti þau velvilja. Það eitt og sér segir okkur að við eigum að vera algerlega óhrædd við að óska eftir því að málið fari fyrir þessa sameiginlegu EES-nefnd. Í fyrsta lagi er hún lögformleg og samningsbundin, það er náttúrlega mjög mikilvægt atriði í þessu sambandi. En auk þess höfum við það sterkan málstað, þ.e. við erum ekki tengd þessu sameiginlega kerfi og það eitt og sér er mjög rík ástæða og mikilvæg til þess að veita okkur þessa undanþágu.

Kjarni málsins er sem sagt sá að ég held að það sé bara rangt stöðumat hjá stjórnvöldum og ríkisstjórninni, hversu góða stöðu við höfum. Það er einhver óttablandin virðing gagnvart samningsaðilanum sem að mínu mati er óþörf. Þá legg ég áherslu á að við erum með þennan samning sem gefur okkur þessi lögformlegu réttindi.