149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:48]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég verð að viðurkenna að maður veltir því fyrir sér — líka vegna þess að verið er að minnast þess um þessar mundir að liðin eru 25 ár frá því að þessi samningur var gerður og tók gildi, og í ljósi þess hversu hikandi þeir sem nú ráða fyrir löndum hér á landi virðast vera í þessu máli og í kjötmálinu — hvort þessir aðilar hefðu talið óhætt, þegar EES-samningurinn var gerður, að fara fram á þá miklu og stóru undanþágu sem við höfum gagnvart sjávarútvegshagsmunum okkar. Hefði það verið talið óhætt miðað við þann málflutning sem nú er hafður uppi?

Ég ætla að leyfa mér að segja, herra forseti, að ég tel að Íslendingar séu mjög hlynntir þátttöku af Íslands hálfu í alþjóðlegu samstarfi. Við tökum þátt í alþjóðlegu samstarfi, við erum stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu, stofnaðilar að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum. Við gengum í EFTA, við erum í Evrópska efnahagssvæðinu og allt er þetta gert á grundvelli fullveldisréttar þjóðarinnar.

Jón Sigurðsson forseti kenndi þjóðinni um gildi frjálsra viðskipta og þann mikla ávinning sem þjóðir hafa af frjálsum viðskiptum. Þetta kunna og skilja Íslendingar. Þess vegna er það mér mjög mikið umhugsunarefni þegar það er gert af hálfu sumra að ala á því að það að Íslendingar standi á sjálfsögðum rétti sínum og gefi ekki eftir fullveldi yfir orkuauðlindum sínum sé nánast eins og því sé haldið að þjóðinni, að ég ekki segi hóta, að mikilvægir viðskiptahagsmunir, eins og við sannarlega höfum af aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu, gætu reynst vera í uppnámi.

Ég hef áhuga á því, ekki síst í ljósi menntunar og reynslu þingmannsins fyrr á tíð, að heyra viðhorf hans í þessum efnum.