149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:03]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar til að þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni kærlega fyrir ræðuna sem var innihaldsrík og áhugaverð. Mig langar til að þakka honum fyrir að taka þátt í umræðunni og kannski að velta því upp hér að við höfum verið sökuð um að standa í málþófi. En þó er það svo að eftir síðustu nótt hafa samt sem áður tekið til máls hér í dag þingmenn þriggja ólíkra flokka og á meðan það er myndi þessi umræða tæplega flokkast sem málþóf.

Hv. þingmaður kemur inn á það að hann sé ekki á móti EES-samningnum. Ég held að einhugur sé um það hér í þingsal þó að mönnum hafi verið borið það á brýn að það sé tilgangur okkar sem höfum verið andsnúnir orkupakkanum að grafa undan EES-samningnum.

Það er alveg rétt að raforkan er eins og hver önnur vara. Við þekkjum það, eftir innleiðingu fyrri orkupakka, að raforkuverð hefur hækkað. Og það mun vera svo, þó ekki sé á aðra hallað, að hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson hefur hér á Alþingi verið einn helsti málsvari þeirra sem minna mega sín, efnahagslega sérstaklega, í þjóðfélaginu. Hann hefur komið inn á það í ræðum sínum að allar slíkar hækkanir, eins og þær sem við kannski búumst við að fá hér í kjölfar innleiðingar þriðja orkupakkans, muni hafa áhrif á þennan hóp, eins og reyndar alla aðra hópa, en kannski miklu meiri áhrif á þá hópa sem minni hafa tekjurnar, eins og til að mynda öryrkja eða aldraða eða fatlaða einstaklinga.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann muni svona hér um bil hversu mikil áhrif innleiðing fyrri orkupakka hafði á lífskjör eða kaupmátt þessara hópa og hvort hann geti gert sér í hugarlund að ef það raungerist að raforka til heimilisnota hækki — segjum þrefalt, sumir segja meira, en höldum okkur við lægri mörkin — hvers konar áhrif það myndi hafa á þessa hópa.