149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:10]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Jú, það segir sig sjálft að við eigum að forgangsraða málunum í réttri röð. Ég er á mælendalista í heilbrigðisstefnunni, hef ekki komist þar að eftir að það mál var tekið af dagskrá. Það sýnir sig að það er hægt að taka mál af dagskrá. Það væri alveg hægt að taka þetta mál af dagskrá nú þegar ef vilji væri til. En það virðist ekki vera. Það virðist eiga að pína þetta mál í gegn, sama hvernig farið verður að því.

120 milljarðar, við skulum segja að það væru framtíðartekjur sem kæmu frá Landsvirkjun. Það eru tekjur sem við gætum notað til að koma hlutunum í lag í heilbrigðiskerfinu. Ég talaði um börnin, 350 börn á biðlista. Það fjölgar á biðlistunum um tvo á dag, sem er alveg ótrúlegt. Við náum ekki einu sinni að stöðva fjölgun á biðlistunum. En það sem er líka alvarlegt í þessu, þetta á líka við um eldri borgara og fullfrískt fólk sem bíður eftir alls konar bæklunaraðgerðum. Þar er verið að fara alveg gígantískt illa með fólk. Þar virðist vera til nóg af peningum til að dæla í það lyfjum en það virðast ekki vera til peningar til að lækna fólkið. Eins og ég segi, það er verið að búa til lyfjafíkla og það furðulegasta við þetta er að það er líka verið að framleiða öryrkja í boði ríkisins. Það er búið að margsanna að ef þú ert á biðlista í meira en níu mánuði þá eru yfir 90% líkur á því að þú farir aldrei út á vinnumarkaðinn aftur.

Við verðum að átta okkur á því að við eigum að fresta þessu máli. Við eigum að gefa okkur betri tíma í það. Við eigum að taka mikilvægari mál á dagskrá og ræða þau vel og vendilega og sjá til þess að þar tökum við vel á þannig að við getum virkilega verið að hjálpa þeim sem við eigum að hjálpa. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)