149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:33]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna sem var afar góð og skilmerkileg. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni með að það er bara ein leið fær í þessu máli, sem er varanleg og kemur til með að halda, það er að fara með málið fyrir sameiginlegu EES-nefndina og fá þá varanlega undanþágu sem skiptir höfuðmáli í þessu öllu saman.

En það sem mig langaði að koma aðeins inn á varðandi ræðu hv. þingmanns eru fyrirvararnir sem stjórnvöld hafa sett. Nú hefur verið deilt mjög um þessa fyrirvara í þessum sal. Hér kom hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson upp í pontu undir liðnum fundarstjórn forseta og fór mikinn og sakaði Miðflokksmenn, þingmenn hér, um að fara með rangfærslur í þessum efnum og m.a. hvað fyrirvarana varðar. Hann nefnir þar sérstaklega fyrirvara í greinargerð og að hann sé í gildi.

Þá segi ég: Kemur sá fyrirvari til með að gilda gagnvart dómstól ESA? Hvað segir t.d. fræðimaðurinn Baudenbacher sem utanríkisráðuneytið réði til starfa til að gera sérstaka greinargerð um málið? Hvað segir hann um það? Er hann sammála því að þessi fyrirvari haldi?

Það eru svo miklar þversagnir í þessu. Það er verið að saka okkur Miðflokksmenn um að fara með rangfærslur og hræðsluáróður o.s.frv. á sama tíma. En eins og hv. þingmaður bendir réttilega á í ræðu sinni er bara ein leið fær. Hins vegar ákváðu stjórnvöld að fara ekki þá leið. Þau taka leið sem ríkir mikil óvissa um. Það vekur náttúrlega upp margar spurningar ef hv. þingmaður gæti kannski komið aðeins inn á það.