149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:37]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tek undir með honum að þeir fyrirvarar sem stjórnvöld hafa sett við þetta mál til þess að tryggja framgöngu þess og til að friðþægja sitt bakland, eins og t.d. í Sjálfstæðisflokknum, hafa enga þýðingu þegar kemur að því að fara með málið fyrir dóm sem við munum sjálfsagt örugglega þurfa á einhverju stigi málsins að gera, fyrir utan það að óvissan um að þeir hafi einhverja þýðingu, vegna þess að aldrei var reynt á það. Þetta er bara það sem er sambærilegt því sem ég og fleiri hafa nefnt hér úr ræðustól þegar kemur t.d. að kjötmálinu, svo við rifjum það upp aftur, þá innleiðum við matvælalöggjöf Evrópusambandsins 2009 til þess að tryggja að hingað komi ekki hrátt kjöt sem getur þá ógnað okkar hreina landbúnaði og hreinu búfjárstofnum, þá settum við fyrirvara alveg eins og verið að gera núna og sá fyrirvari er bundinn í lög og hann heitir frystiskylda. Allt kjöt sem kemur til landsins skal vera fryst a.m.k. í 30 daga. Og hvað kemur í ljós? Jú, þessi fyrirvari heldur ekki neitt. Hann er lagalegur. Svo halda menn því fram hér að fyrirvari sem er í greinargerð haldi (Gripið fram í: Og reglugerð.) — og reglugerð. Það er rétt hjá hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur. En hver var niðurstaðan? Þeir fyrirvarar héldu ekki neitt, ekki lagalegur fyrirvari í kjötmálinu. Halda þeir svo að þessir fyrirvarar komi til með að halda?

Nei, ég segi, herra forseti, þetta er bara málflutningur sem ég hélt að menn væru búnir að læra af. Og að fara þessa leið sýnir bara að menn hafa ekkert lært af reynslunni. Það er að sjálfsögðu mjög dapurlegt í svo stóru máli sem þessu.