149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:47]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir svarið. Þetta setur í nýtt ljós þá stöðu sem við höfum verið í hingað til í umræðunni. Þrátt fyrir að hafa beðið stuðningsmenn orkupakkans, innleiðingarinnar, úr ríkisstjórnarflokkunum, að koma til samtals við okkur hefur enginn mætt. Við höfum boðið þeim upp á að þeir fengju hið snarasta að fara fram fyrir alla þingmenn Miðflokksins á mælendaskrá þannig að þeir þyrftu ekki að bíða. En það mætir enginn.

Það sem hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson sagði áðan bendir til þess að nú séu menn komnir á þann stað að vilja ekki láta hanka sig á neinu. Nýjustu fréttir eru þær að utanríkisráðherra sé kominn í leyfi frá þingstörfum, væntanlega í einhverjum erindagjörðum vegna embættis síns erlendis. Ekki er hann væntanlegur, geri ég ráð fyrir. Formaður utanríkismálanefndar hefur ekki komið hingað mjög lengi.

Mér er spurn: Deilir hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson þeirri skoðun með mér að hugsanleg skýring á fjarveru þingmanna ríkisstjórnarflokkanna við umræðurnar sé að enginn þeirra vilji raunverulega finna sig í þeirri stöðu að þurfa að tala fyrir þessum meintu fyrirvörum? Ég get sagt fyrir sjálfan mig að ég vildi ekki lenda í þeirri stöðu að þurfa að verja þær lofsverðu blekkingar miðað við þær upplýsingar sem fram eru komnar.