149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:49]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir andsvarið. Þessi samningur um Evrópska efnahagssvæðið, þetta plagg — þessi lög eru sett fram í mjög rökréttri röð. 7. gr., sem ég vitnaði í hér áðan, fjallar um markmið og meginreglur samningsins, hvernig við stöndum að þessum hlutum. Síðan eru hinar greinarnar tilhögun ákvarðanatöku, þ.e. hvernig við tökum ákvarðanir í kjölfarið ef upp kemur deila eða upp kemur ágreiningur. Þar undir falla greinarnar 97/102, 103 og 104 og eftir atvikum fleiri.

Hv. þingmaður spurði hvort ég teldi að stjórnarliðar teldu sig vera komna í þrönga stöðu. Já, vissulega. Hv. þingmaður sagði að hann myndi ekki vilja finna sjálfan sig í þeirri stöðu að vera gerður afturreka. Ég get vel skilið það. En ég segi fyrir mitt leyti að heldur myndi ég vilja vera í þeirri stöðu að vera leiðréttur, og hafa burði og drengskap til að ganga til baka, stíga eitt skref aftur á bak og halda reisninni, en að vaða áfram á þeirri forsendu að ég hafi ekki viljað láta beygja mig. Hér snýst þetta ekkert um að brjóta. Það má beygja menn en ekki brjóta. Þetta snýst ekkert um það hver hafi rétt fyrir sér. Þetta snýst um það hvað er rétt, hvað er rétt fyrir íslensku þjóðina, hvað er rétt fyrir okkur á Alþingi að gera og hvernig við störfum eftir lögunum.