149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:01]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir svarið. Já, þetta er það sem hefur verið rætt. Það er sem sagt verið að einkavæða og við höfum, eða ég hef alla vega komið inn á það í ræðum mínum að ég skil þá forsendu í Evrópu að regluverkið sem verið er að setja utan um hluti í þriðja orkupakkanum og varða neytendavernd eiga við á meginlandinu þar sem auðlindirnar og virkjunarkostirnir eru í einkaeigu nú þegar. Það er til að koma í veg fyrir óeðlilega samþjöppun á markaði, risafyrirtækja sem eru svokölluð „global“ fyrirtæki og við getum alveg velt því fyrir okkur hér hvort smáþjóð eins og Ísland geti raunverulega keppt við risafyrirtæki, olíufyrirtæki, eins og t.d. Exxon sem hefur m.a. starfsstöðvar í Brussel, sem eru með efnahagsreikning sem er mögulega stærri en efnahagsreikningur íslensku þjóðarinnar. Og það eru fleiri fyrirtæki, orkufyrirtæki, sem eru gríðarlega stór á markaði.

Telur þingmaður að það geti verið að við verðum kannski bara í þeirri stöðu að við getum illa keppt í slíkum útboðum og innan tíðar verðum við í þeirri stöðu að búið verði að einkavæða? Þrátt fyrir að talað sé um að hvergi sé stafkrókur um það í þriðja orkupakkanum að við eigum að gera það, þá er kannski ekkert sem segir heldur að það sé ekki hægt að gera. Getur hv. þingmaður kannski komið aðeins inn á það hvort það sé möguleiki?