149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:03]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Það er einhvern veginn oft þannig að mál sem þessi og úrvinnsla þeirra virðast lenda á einhvers konar færibandi og síðan inn í einhverjum einstefnuloka þar sem allt mallar í sömu átt. Ég hef stundum tekið dæmi um það að árið 2010 hafði ég miklar áhyggjur af því að uppi væru áframhaldi áform um að þrengja verulega að flugvellinum í Vatnsmýrinni og verið væri að stíga skref með það að endanlegu markmiði að losna við hann sem fyrst. Svör traustra manna voru þau að ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af því. Hér væri allt saman nýhrunið, allir bankar landsins, og enginn væri að hugsa um að flytja flugvöll eða byggja hús nokkurs staðar. En á þeim tíma var öll undirbúningsvinnan í gangi, embættismennirnir unnu sín verk og jafnt og þétt nálguðust andstæðingar flugvallarins það markmið sitt að hann yrði sleginn af.

Ég held að mál eins og þetta, hvað orkumarkaðsmál og skipulag orkumála varðar, sem sagt einkavæðing versus núverandi fyrirkomulag og þar fram eftir götunum, sé mjög fjarlægt öllum almenningi á löngum köflum. Tilhneigingin er sú að þetta fari svona á sjálfstýringu embættismannakerfisins. Hún er í dag er ég hræddur um að miklu leyti fókuseruð á það að regluverkið verði aðlagað hinu evrópska stórumhverfi. Það er auðvitað þess vegna sem við stöndum í þessum slag hér, Miðflokksmenn og -konur.