149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:11]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni kærlega fyrir ræðuna sem var innihaldsrík. Ég get ekki varist því að velta fyrir mér því sem hv. þm. Bergþór Ólason kom inn á hér áðan, að nú virðist svo vera að þrátt fyrir að þingmenn séu í húsinu, sé á staðnum, forðist þeir það eins og heitan eldinn að taka hér umræðuna, jafnvel umræðu um mál sem hefur nýlega verið velt upp.

Nú hefur steinum verið velt við sem ekki var velt við í fyrri umræðu um þessa þingsályktunartillögu; mál sem ekki hafa verið rædd hér í björtu, skulum við segja, á meðan fólk hefur verið í húsi. En nú erum við að tala saman í björtu og fólk er í húsi en fólk er komið á þann stað að sennilega vill það ekki láta spyrða sig við það sem er að gerast meira en orðið er.

Ég held að það sé afar miður. Ég held að það væri kannski hægt að búa til einhvers konar japanska hurð í þessu máli, ef svo má að orði komast, þ.e. hurð baka til sem hægt væri að bakka út um. Hún myndi felast í því að þessu máli yrði frestað. Ég held að komin séu fram það góð gögn í þessu máli að ekki verði um villst að svona, eins og til er lagt, megum við ekki gera þetta. Eða hvað telur þingmaður í því? Getur þingmaður komið inn á það hvort hann telji að fólk sé komið í þá stöðu að nú sé stoltið orðið réttmætinu yfirsterkara.