149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:13]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Jú, ég get tekið undir með honum að því leyti til að það er landlægur ósiður á Íslandi, að mér finnst, hvað stjórnmálamenn eiga erfitt með að játa fyrir sjálfum sér og öðrum að þeir séu á rangri leið með eitthvert mál og séu þess vegna til í að fara einhverja aðra leið en þeir eru á hverju sinni.

Við sjáum þetta í mjög mörgum myndum. Við sjáum þetta t.d. í þráa þeirra sem vilja með öllu móti byggja Landspítala á kolröngum stað. Það er enginn sem stendur upp og segir: Heyrðu, afsakið gott fólk, þetta voru mistök hjá okkur. Það er vitleysa að halda þessu áfram. Við byrjum upp á nýtt annars staðar. Þetta hefði verið hægt að gera fyrir ári en það er orðið erfiðara núna. Þetta þýðir að við sitjum sífellt uppi, þ.e. almenningur, þjóðin, með dýrkeypt mistök sem ekki er hægt að taka til baka.

Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að þingmenn sem bíða, eins og Styrmir Gunnarsson orðar það svo vel, eftir því að rétta upp höndina með orkupakka þrjú gegn eigin samvisku virðast ekki þora eða geta eða vilja koma fram og segja: Heyrðu, þetta er örugglega bara vitleysa hjá okkur eins og þetta er núna. Við ættum kannski að hugleiða þetta aðeins. Við ættum kannski að fresta málinu. Við ættum að reyna að fá um það dýpri samstöðu. Við ættum að reyna að kynna það betur fyrir þjóðinni sem á eftir að sitja uppi með eftirköstin, eins og ég sagði áðan. Þetta gerir enginn heldur bíða menn, eins og Styrmir segir réttilega, eftir því að rétta upp höndina með samningnum gegn betri vitund og gegn samvisku sinni.