149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:16]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, sem ég þakka svarið, hafi ekki verið í þingsal áðan þegar ég hélt leiðinlegu ræðuna mína. Ég las upp úr lögum nr. 2/1993, þ.e. lögum um Evrópska efnahagssvæðið. Í 97. gr. segir, með leyfi forseta:

„Með fyrirvara um meginregluna um jafnræði, og eftir að öðrum samningsaðilum hafa verið veittar upplýsingar þar um, hefur samningur þessi ekki áhrif á rétt einstakra samningsaðila til að breyta innlendri löggjöf á þeim sviðum sem samningurinn tekur til:

ef sameiginlega EES-nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að löggjöf, eins og henni hefur verið breytt, hafi ekki áhrif til hins verra á framkvæmd samningsins; eða

ef skilyrðum 98. gr. hefur verið fullnægt.“

Það er að þessi gjörningur má ekki hafa áhrif til hins verra á samninginn. Samningurinn snýst að sjálfsögðu um orkumál, flæði vöru o.s.frv. Ef við setjum fyrirvara þá hlýtur það að túlkast sem hindrun og það er alveg í fullkomnum stíl við það sem kemur annars staðar fram, að það megi ekki setja viðskiptalegar hindranir. Þessi lagatexti sem Evrópusambandið skrifar er ekkert húmbúkk. Það er ekki tilviljunarkennt hvernig þetta raðast niður. Þetta er alveg í fullkomnu samræmi og marglesið yfir af mjög færum lögspekingum.

Ég held að mikilvægt sé að gera sér grein fyrir því að í 98. gr. segir:

„Breyta má viðaukum samningsins, svo og bókunum“ — og tilgreindir eru ákveðnir töluliðir — „eftir því sem við á, með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar í samræmi við 93. (2. mgr.), 99., 100., 102. og 103. gr.“ Sem eru greinarnar sem fjalla um sáttameðferðina.