149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:21]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég hef aðeins tíundað í fyrri ræðum mínum þær fjölmörgu umsagnir sem hafa borist utanríkismálanefnd vegna þessa máls sem sýna að margir hafa áhyggjur af málinu. Um 70% umsagna eru neikvæðar í garð innleiðingar þessa orkupakka, Evróputilskipunar um sameiginlegt markaðssvæði raforku á sameiginlega EES-svæðinu.

Það sem vekur athygli mína eru verkalýðsfélögin sem ég hef aðeins nefnt og átt orðastað við þingmenn um það, að þau lýsa áhyggjum sínum yfir þessu. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og varaforseti Alþýðusambands Íslands, sagði, með leyfi forseta:

„Ég er sannfærður um að þessir orkupakkar eru vegvísar að því að við sem þjóð missum hægt og bítandi yfirráðarétt okkar yfir okkar mikilvægustu auðlind sem eru orkuauðlindirnar.“

Það er mikið sannleikskorn í þessu frá verkalýðsleiðtoganum vegna þess að verið er að taka þessi skref, eitt skref í einu að þessu sameiginlega markmiði. Næsta skref verður væntanlega sæstrengurinn og þá er nú komið á þann stað að við höfum ekkert um þessi mál að segja.

Það sem vekur athygli mína líka varðandi málið er að fyrrverandi ráðherrar hafa lýst áhyggjum sínum yfir þessu og lýsa andstöðu sinni við þetta. Má nefna Davíð Oddsson, Guðna Ágústsson, Hjörleif Guttormsson, Jón Baldvin Hannibalsson, Jón Bjarnason, Pál Pétursson, Sighvat Björgvinsson, Tómas Inga Olrich og Ögmund Jónasson. (Forseti hringir.) Hvað finnst hv. þingmanni um þennan þátt málsins (Forseti hringir.) þegar svona margir ráðherrar lýsa áhyggjum yfir málinu?