149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er alveg laukrétt ábending hjá hv. þingmanni og maður skyldi halda að þeir sem nú skipa þá flokka sem eru u.þ.b. að keyra þennan pakka í gegnum þingið myndu hlusta á menn með reynslu, menn sem komu að þessu máli fyrr, menn sem komu jafnvel að því að innleiða orkupakka eitt og tvö.

Þessir ágætu menn eru komnir á þennan stað sem ég lýsti hérna áðan að væri svo erfitt fyrir íslenska stjórnmálamenn að tileinka sér, að þeir eru búnir að sjá það sjálfir núna, allir þessir ágætu menn, að það sem þeir gerðu sjálfir áður, þ.e. að innleiða pakka eitt og tvö, virkaði ekki eins og þeir héldu. Þeir sjá eftir því og þeir segja líkt og aldraður lögspekingur sem ég vitnaði til í gærkvöldi eða nótt. Hann sagði: Við skulum horfast í augu við að það að innleiða orkupakka eitt og tvö voru mistök af okkar hálfu, tala nú ekki um að innleiða orkupakka tvö eins og við gerðum það. Þannig að nú er kominn tími til þess að stíga niður fæti og leiðrétta þessi mistök í eitt skipti fyrir öll.

Ég held að þeir ágætu heiðursmenn sem þarna voru nefndir séu akkúrat þarna á þessum stað. Ég veit ekki hvort það á að lýsa því sem einhverju, hvað á ég að segja, samblandi af hroka, minnimáttarkennd og vangetu þeirra sem núna stýra þeim flokkum sem þessir ágætu menn voru í, að þeir skuli ekki taka mark á þeim. Þunginn í þessu máli lýsir sér kannski best í því sem Ögmundur Jónasson, fyrrverandi hv. þingmaður og hæstv. ráðherra fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð sagði á Austurvelli á laugardaginn: (Forseti hringir.) Þessi flokkur á að heita: Hreyfingin – framboð. Því að það er hvorki vinstri né grænt (Forseti hringir.) eftir í þessum flokki. (Forseti hringir.) Þetta voru hans orð. Þetta eru þung orð.