149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:26]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og hvernig hann greindi þetta mikilvæga atriði í mínum huga. Það eru fjölmargir fyrrverandi ráðherrar sem lýsa miklum áhyggjum sínum yfir þessu máli og hvernig á því hefur verið haldið. Þar er t.d. fyrrverandi utanríkisráðherra og einn okkar helsti sérfræðingur í EES-samningnum, Jón Baldvin Hannibalsson, sem ætti að vera manna fróðastur um samninginn og hefur nú verið Evrópusinni mikill. Hann lýsir áhyggjum sínum af málinu og lýsir andstöðu við það að innleiða þennan pakka.

Mér er það sérstaklega minnisstætt að ég var á fundi þar sem var verið að fara yfir þessi mál þar sem hann var meðal fundarmanna. Hann lagði einmitt áherslu á að það hafi aldrei verið rætt í upphafi þessa EES-samnings að orkumálin ættu eftir að vera hluti af honum. Sama með landbúnaðarmálin, sem sýnir það að EES-samningurinn hefur breyst mjög mikið frá því að til hans var stofnað fyrir 25 árum. Í raun og veru er ekki um sama samninginn að ræða. Það eitt og sér er röksemdafærsla fyrir því að fá varanlega undanþágu innan EES-nefndarinnar og fara með málið þar. Í fyrsta lagi erum við ekki tengd þessum sameiginlega markaði. Það eitt og sér er náttúrlega mjög góð áhersla í því að fá undanþágu og síðan það sem ég nefndi hér, röksemdafærsla númer tvö, að þetta hafi (Forseti hringir.) aldrei verið hugsað til þess að vera(Forseti hringir.) í samningnum.