149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:30]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Virðulegur forseti. Við upphaf síðustu ræðu minnar hafði ég boðað það að næst myndi ég fjalla aðeins um stöðu mála í Noregi er varðaði þriðja orkupakkann og hvaða áhrif það getur haft á stöðu okkar hér. Hins vegar vannst mér ekki tími til að klára að fara yfir umræðuefni þeirrar ræðu, þ.e. þróun orkumarkaðarins í Evrópu, og verð því að nýta þessa ræðu í það en koma inn á stöðuna í Noregi í þeirri næstu.

Eins og ég hafði þó nefnt er orkumarkaðurinn í Evrópu og þróun hans eitt af meginforgangsatriðum Evrópusambandsins, ég myndi segja annað af tveimur ásamt því að reyna að vinna úr eftirmálum fjármálakrísunnar og lappa upp á evruna. Hitt eru orkumálin þar sem Evrópusambandið er annars vegar í miklum innviðavandræðum. Þar skortir á að markaðurinn sé tengdur og sé ein heild, sem að mati sambandsins er mjög mikilvægt á nákvæmlega sama hátt er varðar fjármálakerfið. Þeir líta á þetta sem mikið grundvallaratriði í þeim framtíðaráformum sínum að láta þetta allt saman verða eins mikla heild og þeir mögulega geta. En hins vegar þarf Evrópusambandið að standa við yfirlýsingar sínar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þar hafa menn m.a. fallist á Parísarviðmiðin, sem reyndar verður að segjast, virðulegur forseti, að jafnvel þó að gögn Sameinuðu þjóðanna sjálfra séu skoðuð og allir stæðu við það sem þeir hafa lofað í Parísarsamkomulaginu hefði það sáralítil áhrif á þróun loftslagsmála. En hvað um það, þeir vilja leitast við að standa við fyrirheit sín í þessum efnum.

En það er áhugavert í því sambandi að líta til þess að Bandaríkin hafa á undanförnum árum staðið sig ekki síður og raunar mun betur en mörg Evrópulönd í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Því skyldi það nú vera? Jú, fyrst og fremst vegna þess að Bandaríkin hafa í auknum mæli fært sig yfir í að brenna gas til að framleiða orku fremur en kol. Þetta er auðvitað eitthvað sem varðar Ísland, annars vegar vegna þess að við höfum einmitt þegar fengið undanþágu á sviði orkumála. Og um hvað snerist það? Það snerist um jarðgas vegna þess að við vorum ekki að framleiða og flytja út slíkt. Hins vegar eru umtalsverðar líkur á því að jarðgas sé að finna í mjög verulegum mæli í íslenskri lögsögu á Drekasvæðinu. Þær rannsóknir sem hafa verið unnar þar benda til þess að svo geti verið, raunar bæði olía og gas, en mun meira af gasi. Það er ekki óhugsandi að Íslendingar kynnu að verða gasútflytjendur, við skulum segja í fyrirsjáanlegri framtíð. Engu að síður var veitt undanþága hvað varðaði gasið. Því þá ekki að veita sams konar undanþágu varðandi rafmagn sem framleitt er með þeim endurnýjanlegu orkugjöfum sem þegar eru fyrir hendi?

Auðvitað óttast maður að Evrópusambandið geri sér ekki grein fyrir mikilvægi þess að færa sig úr kolum yfir í gas, við höfum séð ýmis dæmi um það, en að það sé slík ofuráhersla á að komast í orku sem hægt er að skilgreina sem endurnýjanlega hvar sem hana er að finna að menn hafi ekki viljað veita undanþágu hvað það varðaði. Að minnsta kosti ekki ef íslensk stjórnvöld væru ekki að sækja á um það af festu og þar af leiðandi láti menn sér í léttu rúmi liggja, eða jafnvel hafi dálítið gaman af þeirri aðferð sem íslensk stjórnvöld eru að fara núna með því sem hafa verið kallaðir lofsamlegir fyrirvarar, hinar lofsamlegu blekkingar, af stuðningsmönnum Evrópusambandsins, og sjái fyrir sér að þetta séu einmitt yfirlýsingar til heimabrúks og stóra planið um samtengingu raforkumarkaðanna og tengingu við umhverfisvæna endurnýjanlega orkugjafa geti þar af leiðandi náð fram að ganga. Því að við höfum líka séð að þegar um stór pólitísk markmið Evrópusambandsins er að ræða vill það ná sínu fram. Og jafnvel þó að það séu tiltölulega léttvæg atriði að mati Evrópusambandsins eins og í dæminu um frosna kjötið, þá geti menn í slíkum tilvikum jafnvel farið gegn lagalegum fyrirvörum, raunverulegum lagalegum fyrirvörum, til að vinna að markmiðum sambandsins.