149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:43]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Háæruverðugur forseti. Já, ég skal alveg fallast á þessi rök hv. þingmanns, að í rauninni skipti fyrirvararnir engu máli, séu til heimabrúks, séu jafnvel blekkingar eins og bent hefur verið á. En á móti dreg ég fram fegurðina sem liggur í því sem boðið er upp á til að leysa úr svona málum. Það er eitt af þessu jákvæðasta við EES-samninginn að hann skuli bjóða upp á það sem hv. þingmaður lýsti hér áðan, aðferðir til að leysa ágreiningsmál eða mál sem eru þess eðlis að tiltekin aðildarlönd samningsins telji að innleiðing henti sér ekki.

Það er eitthvað mjög öfugsnúið við það þegar stjórnvöld sem í einu orðinu segjast vera að standa vörð um EES-samninginn treysta sér ekki á sama tíma til að nota þessa jákvæðustu þætti hans sem snúa einmitt að því að leysa málin, að tryggja að jafnræði sé milli aðila samningsins en ekki gengið á hlut ákveðins aðila, ákveðins lands. Svo hafa menn sett þetta í samhengi við innbyrðisstöðuna hjá EFTA-löndunum og jafnvel haldið því fram að Ísland þurfi bara að lúta stjórn Noregs í þessum málum, af því að Norðmenn líti á sig sem einhvers konar yfirboðara Íslands í þessu samstarfi. Með því er náttúrlega líka, ef menn ætluðu að viðurkenna það, verið að eyðileggja þetta samstarf, en það er hins vegar engin ástæða til að fallast á slíka túlkun. Enda þrátt fyrir að einhverjir embættismenn í Noregi kunni að vera mjög Evrópusinnaðir og myndu styggjast við að þessi jákvæðu atriði samningsins séu nýtt, séu virkjuð, þá leyfi ég mér að segja að mikill meiri hluti norsks almennings sé þeirrar skoðunar að ef þessi samningur eigi að virka til framtíðar þurfi einmitt að nýta þessi ákvæði.