149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:02]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir spurningarnar. Maður skyldi ekki ætla að það væri yfir grýttan veg að fara að vísa þessu máli aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Miðað við orðalag sem hv. þingmaður las upp áðan, um að hægt sé að komast að samkomulagi og leitast við að semja um málin, ætti það ekki að vera örðugt. Og sérstaklega ekki miðað við þær yfirlýsingar sem hafa verið að berast og hafa verið fram færðar af stjórnarliðum, að forsvarsmenn og hinir og þessir aðilar úti í Evrópu skilji svo mætavel afstöðu og sérstöðu Íslands í málinu. Þá ætti þetta nú að vera einfaldasta og auðveldasta mál, skyldi maður ætla. Og enn frekar þess vegna skilur maður ekki þennan ótta sem menn hafa af því að fara þessa leið ef fyrir liggur að framkvæmdastjóri orkumála hjá Evrópusambandinu skilji svona vel afstöðu Íslendinga. Af hverju eru menn hræddir við að fara einmitt þangað, færa fram rök sín og mæta þeim skilningi sem mun vera þar til staðar og fá þá undanþágur frá þeim ákvæðum eða reglugerðum sem mest hefur verið deilt á að gangi hugsanlega í berhögg við stjórnarskrána með framsali valds til alþjóðlegra stofnana eins og margoft hefur verið rætt hér um?