149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:14]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ánægður með að hv. þingmaður skuli fallast á þessa túlkun mína. En er þá ekki óhætt að ætla að aðrir, til að mynda innan Evrópusambandsins sem leggur höfuðáherslu á að bæta úr stöðu orkumála hjá sér, geri sér grein fyrir þessari staðreynd líka, samspilsins milli orkuframleiðslunnar og annarrar verðmætasköpunar?

Má þá ekki ætla í framhaldinu að í ljósi þess hve Evrópusambandið hefur gengið hart fram í málum sem eru miklu minni hagsmunamál fyrir sambandið, og nefnd hafa verið dæmi um það í þessari umræðu, að í svona stóru hagsmunamáli, undirstöðu svo margs annars í atvinnulífinu, muni Evrópusambandið sækja á? Og þar af leiðandi sé fráleitt fyrir okkur að kasta frá okkur þeim vörnum sem við höfum, þeim vörnum sem EES-samningurinn tryggir okkur þrátt fyrir allt á meðan við gefum það ekki frá okkur?