149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að halda áfram þar sem frá var horfið í síðustu ræðu minni. Þá ræddi ég afleiðingar þess að orkufyrirtækjum var skipt upp með innleiðingu orkupakka eitt og tvö sem kristallast mjög í fyrirtækinu Hitaveitu Suðurnesja sem síðan var skipt upp í HS Orku og HS Veitur. Í fyrri ræðu minni ræddi ég hvernig að þessu var staðið og hvernig stjórnmálamenn stóðu ekki við það sem þeir lofuðu, sveitarstjórnarmenn í Reykjanesbæ þar sem Sjálfstæðisflokkurinn var með hreinan meiri hluta á þessum tíma. Svo að ég rifji það aðeins upp úr fyrri ræðu minni þá byrjaði Reykjanesbær að selja fasteignir sínar árið 2003 og þá höfðu menn áhyggjur af því að hluturinn í hitaveitunni yrði jafnvel seldur. Sveitarstjórnarmenn fullyrtu að svo yrði ekki gert. Annað kom á daginn og árið 2009 var Reykjanesbær búinn að selja allan sinn hlut í hitaveitunni. Þetta var upprifjun úr fyrri ræðu minni; ég tel þetta mjög mikilvægt inn í þessa umræðu, þ.e. hvaða afleiðingar markaðsvæðingin hefur haft fyrir þjóðina. Sporin hræða í þessum efnum.

Það er sem sagt árið 2010 sem kanadískt fyrirtæki sem heitir Magma Energy, með leyfi forseta, er orðið eigandi að Hitaveitu Suðurnesja. Þar var þetta fyrirtæki í eigu sveitarfélaganna á Suðurnesjum byggt upp af þeim frá grunni og hafði mjög mikla þýðingu samfélagslega, t.d. hvað varðar dreifingu á heitu vatni. Þó að ákveðin svæði væru ekki arðbær var heitu vatni engu að síður dreift þangað og síðan rafmagni á vegum þessa sama fyrirtækis; að öðrum kosti hefði það ekki verið framkvæmt af einkaaðila. Þegar búið er að selja hitaveituna er það réttlætt með því að dreifikerfið verði áfram í eigu sveitarfélaganna undir nafninu HS Veitur. Menn þyrftu ekki að hafa áhyggjur af því að HS Veitur dreifikerfið yrði áfram í opinberri eigu. Fyrr var sagt að menn þyrftu ekki að hafa áhyggjur af því að hitaveitan yrði seld. Það stóðst ekki, hún var seld. Nú er komið að HS dreifikerfinu og þá segjast sveitarstjórnarmennirnir á þessum árum, 2010, að ekki þurfi að hafa áhyggjur af því að það verði selt.

Skoðum svo nánar. Árið 2008 er HS Veitur stofnað og það er í eigu sveitarfélaganna og Orkuveitu Reykjavíkur, sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Árið 2013 byrjar síðan Reykjanesbær að selja hlut í HS Veitum. Þeir höfðu hins vegar lofað því að það yrði ekki gert og almenningur þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því, dreifikerfið yrði áfram í eigu almennings. Þarna er sem sagt hlutur seldur til einkafélags í einkaeigu. Síðan fylgja hin sveitarfélögin á eftir sem áttu minni hluti.

Það sem er athyglisverðast við þetta allt saman er að menn lofa því að þetta komi ekki til með að gerast en það er ekkert staðið við það, bæði hvað varðar sölu á hitaveitunni og síðan dreifikerfinu. Hvort tveggja er selt þrátt fyrir gefin loforð um að það yrði ekki gert. Það er alvarlegur hlutur, herra forseti, þegar stjórnmálamenn koma fram við almenning með þessum hætti. Ég óttast mjög að það sama verði upp á teningnum í þessu máli. Búið er að lofa því að hér gerist ekkert í sæstrengsmálum nema Alþingi taki á því með sértækum hætti, það verði lög sem komi í veg fyrir það. Ég segi: Er ekki mjög líklegt að þessi lög verði afnumin fljótlega eftir að þau verða sett og hér verði ráðist í lagningu sæstrengs. Þá erum við orðnir aðilar að þessu sameiginlega markaðssvæði og þá erum við komnir undir hina sameiginlegu stofnun Evrópusambandsins sem er ACER og kemur til með að hafa ákvörðunarvald í okkar orkumálum. Ég velti þessu upp hér vegna þess að mikill samhljómur er þarna á milli, að mínu mati, og nauðsynlegt að þessi saga verði sögð. Ég mun ljúka henni í ræðu minni síðar í kvöld.