149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:29]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir áhugaverða ræðu sem er svona eins konar sögutenging eða söguskýring og kannski á þeim nótum að þeir sem ekki geta lært af sögunni eru eiginlega nauðbeygðir eða dæmdir til að endurtaka hana. Ég held að það sé hollt í þessu samhengi öllu að við skoðum svolítið söguna og hvernig hefur ræst úr málum þegar við höfum kannski stigið óvarlega til jarðar.

Það hefur verið svolítið tilhneiging hjá okkur Íslendingum að verða brattir þegar kemur að nýjum hlutum og flýta okkur inn um gleðinnar dyr af því að það er svo gaman þegar eitthvað nýtt er að gerast. Það má vera að það sé kannski afleiðing þess að við erum alin upp til sjávar og sveita þar sem við öflum þegar fanga er von.

Það er rýni í skýrslu í Bændablaðinu frá 12. apríl 2019 um hvað er að gerast í Noregi og hver afleiðingin verður af innleiðingu þessa orkupakka. Ég fór lítillega yfir þá skýrslu í ræðu minni í gær og það er svolítið í samhljómi við það sem hv. þingmaður kom inn á hér, að viðkomandi ríki munu ekki hafa ákvörðunarvald um hvert orkan verði seld. Ég held að það sé einfaldlega svo að ef við förum þessa leið þá er næsta víst að lögin sem verða sett í kjölfarið verði ekki bara afnumin heldur hafi þau raunverulega ekkert gildi þar sem þjóðaréttur stendur framar landsrétti. Mér þætti vænt um að fá smá endurgjöf frá hv. þingmanni á þetta.