149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:39]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar að halda aðeins áfram með þessa umræðu um framtíðarskipan orkumála í Evrópu. Hvers er að vænta? Hvað svo? Hvað gerist í framtíðinni, þ.e. við fjórða, fimmta og jafnvel sjötta orkupakka, eða hversu margir sem þeir verða?

Mig langar til að gera að umræðuefni mínu grein eftir Dale nokkurn Keating, sem er fréttaritari Forbes. Í grein sem hann ritaði, þann 9. apríl sl., er farið stuttlega yfir áform núverandi orkumálastjóra Evrópusambandsins sem við þekkjum úr þessari umræðu, Miguel Arias Cañete. Mig langar að fara yfir innihald þessarar greinar í lauslegri þýðingu; ég vona að mér farist þýðingin ekki mjög illa úr hendi en bið menn að virða það við mig þar sem þetta er gert á hlaupum.

Í greininni segir að þrátt fyrir að völd hafi stöðugt flætt frá höfuðborgum aðildarríkja Evrópusambandsins til Brussel síðustu tvo áratugi, í Evrópubandalaginu, hafi verið ákveðin lykilmál sem Evrópusambandið hafi ekki getað snert á miðað við þær samþykktir sem eru í gildi. Það snerti m.a. samningagerð, varnarmál, menntamál, heilsugæslu og orku- og skattamál — sérstök áhersla er á orku- og skattamál. Í dag, segir Keating í greininni frá 9. apríl sl., tóku þeir þá áhættu að stíga yfir þessa línu sem varðar þessi atriði, þ.e. að reyna að ná ítökum og stjórn á þessum síðustu tveim atriðum, sem eru skattar og orkumál. Hann ræðir um það í greininni að í samhengi við árlega yfirferð á orkubandalagi sambandsins séu áætlanir uppi um að sameina lönd sem eru ótengd orkukerfi sambandsins. Evrópuráðið hefur haft uppi áform um að hverfa frá kröfunni um að einróma samþykki allra 28 landanna í Evrópusambandinu, um að gera breytingar á orku- og skattalöggjöf, sé ráðandi, þ.e. að einróma samþykki sé forsendan. Í krafti þess gerir tillagan ráð fyrir því að slík kosning myndi færast yfir í meirihlutakosningu sem myndi í grunninn byggja á atkvæðaafli sem byggt væri á fólksfjölda. Það væri fólksfjöldi en ekki aðildarríkin sjálf sem myndi ráða þessu. Þessi ágæti maður, orkumálastjóri Evrópu, Miguel Arias Cañete, talar á blaðamannafundi um að krafan um einróma samþykki sé algjörlega úr sér gengin — þ.e. þetta meirihlutalýðræði sem við þekkjum innan landanna. Hann talar um að koma þurfi á þeirri reglu að sá sem mengi borgi og talar um að Evrópusambandið dæli opinberum fjármunum, upp á 5 milljarða evra á ári, til að vega upp á móti notkun jarðefnaeldsneytis og með því sé hvatt til að nýta betur endurnýjanlega orkugjafa, og að ráðið sé margsinnis búið að reyna að breyta þessu fyrirkomulagi á orkulöggjöfinni og skattamálum og hann telur að best væri að koma því líka til Brussel. Hann talar um að löggjöfin bjóði ekki beint upp á það en notar þýska orðið „Passerelle“ sem er eins konar hengibrú, þ.e. að komast yfir þessa löggjöf (Forseti hringir.) um að það þurfi einróma atkvæði með einhvers konar stökki.

Þessu er ansi áhugavert að velta fyrir sér. Hvað bíður? Þetta er hluti af þeirri stefnu sem Evrópusambandið er að móta.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á tímamörk.)